/
  • Streaming + Download

    Includes unlimited streaming via the free Bandcamp app, plus high-quality download in MP3, FLAC and more.

      $12.99 USD

     

1.
2.
3.
4.
5.
6.
04:59
7.
03:22
8.
9.
04:58

about

Sváfnir Sigurðarson hefur sent frá sér plötuna Loforð um nýjan dag, en það er jafnframt hans fyrsta sólóplata. Á plötunni eru níu frumsamin lög.

Loforð um nýjan dag var hljóðrituð í Stúdíó Hljómi og það var Hjálmur Ragnarsson sem stýrði upptökum, Skapti Þóroddsson sá um hljóðblöndun og Sigurdór Guðmundsson, hjá Skonrokk Stúdíós sá um masteringu.

Sváfnir gefur sjálfur út plötuna.

Fyrir þá sem vilja kaupa geisladisk, þá mun diskurinn fást í versluninni 12 Tónar á Skólavörðustíg.

credits

released December 15, 2016

Á plötunni leikur með Sváfni hljómsveitin Drengirnir af upptökuheimilinu, sem var sérstaklega sett saman til að vinna að gerð plötunnar.

Drengirnir á upptökuheimilinu eru:
Eðvarð Lárusson, gítar
Kristján Freyr Halldórsson, trommur
Pálmi Sigurhjartarson, píanól og harmonikka
Tómas M. Tómasson, bassi

tags

license

all rights reserved

about

Sváfnir Sigurðarson Reykjavík, Iceland

Fyrsta sólóplata Sváfnis Sigurðarsonar, Loforð um nýjan dag, kom út í árslok 2016. Áður hefur hann gefið út geisladiskinn Klæðskeri Keisarans, með hljómsveitinni KOL, árið 1994. Hann er annar söngvara og lagahöfunda í hljómsveitinni Menn ársins sem sendi frá sér samnefndan geisladisk árið 2008. Sváfnir hefur samið tónlist við leiksýningar og stuttmyndir svo fátt eitt sé nefnt. ... more

contact / help

Contact Sváfnir Sigurðarson

Streaming and
Download help

Redeem code

Track Name: Tapað fundið
Tapað fundið, týnt en birtist aftur
áður horfið, núna blasir við
að allan tímann stóðstu mér við hlið
að allan tímann varstu mér við hlið

Ég leita að þér og þú að mér
Finn þig ei þótt standir hér
og jafnvel þótt ég hafi víða farið

Ég leita hér ég leita þar
Bókstaklega alls staðar
En veit jú vel að það er vandmeðfarið

Tapað fundið horfið sjónum alveg
Tangur tetur, hvorugt blasir við
Og allir leita að heimskra manna sið
Og allir leita að heimskra manna sið

Ég leita að þér og þú að mér
Finn þig ei þótt standir hér
og jafnvel þótt ég hafi víða farið

Ég leita hér ég leita þar
Bókstaklega alls staðar
En tekst bara alls ekki að finna svarið

og allan tímann stóðstu mér við hlið
já allan tímann varstu mér við hlið

Ég leita að þér og þú að mér
Finn þig ei þótt standir hér
og jafnvel þótt ég hafi víða farið

Ég leita hér ég leita þar
Bókstaklega alls staðar
Hvorugt okkar virðist taka af skarið
Track Name: Loforð um nýjan dag
Stikla á steinum við fjöruborð
aldan hrífur burt öll mín orð
ljós um skýin það læðist gegn
himneskt ofan það fellur regn
og syndum mínum skolar burt um stundarkorn

Og kannski að nóttin efni loforð sitt um nýjan dag
þar sem allt mun ganga mér í hag
Og kannski að morgunsólin syngi okkur ljúflingslag
og upp úr því þá verði allt með nýjum brag

Ef ég sæi mig utanfrá
sæi mig, líkt og aðrir sjá
glugga sem stundum speglast á
og óreiðuna fyrir innan þá
svo hárfín blanda af hamingju og eftirsjá

Og kannski að nóttin efni loforð sitt um nýjan dag
þar sem allt mun ganga þér í hag
Og kannski að morgunsólin syngi þér svo fallegt lag
og allt mun verða fallegt og með betri brag

Ef þú færir á undan mér
skildir mig bara eftir hér
eitt ég vil þá segja þér
að fuglarnir sem flugu í september
snúa aftur síðar eins og vera ber

Og kannski að nóttin efni loforð sitt um nýjan dag
þar sem allt mun ganga þér í hag
Og kannski að morgunsólin syngi þér sitt besta lag
og upp úr því þá verði allt með betri brag
Track Name: Malbiksvísur
Sumarið nítíu-og-eitt (það var í meðallagi heitt)
Og ég var eins og yfirleitt, svo sem ekki að gera neitt
Þá skyndilega fóru hjá, (með miklun drunum svo mér brá)
stórar vélar, ein, tvær, þrjár með vaska drengi aftaná
Ég stökk af stað til þess að gá (veit ekkert hvað ég var að spá)
hvort vinnu væri þar að fá svarið var einfalt, það var já

Og fljótlega þá komu vörubílarnir
Og malbikið það rauk og allir strákarnir þeir gripu skóflurnar
Ég fann frelsið uppi á malbikunarvél
með vind í hárinu á miðjum Víðimel
Ég held mér hafi aldrei liðið svona vel
Ég fann frelsið uppi á malbikunarvél

Sumarið nítíu-og-eitt, það varð þá sem allt varð breytt
Og mér var þægilega heitt og átti ekkert óafgreitt
Ég hugsa oft til þess í dag - hvort ég ætti að skipta um fag
Og finna gamalt bræðralag og malbika hvert moldarflag

Þá stend ég upp og æpi á miðjum kontórnum
Að núna sé ég farinn út og vilja bara fara og ...
Finna relsið uppi á malbikunarvél
með vind í hárinu á miðjum Víðimel ...
Track Name: Burtséð frá því
Burtséð frá því hvað lífið tekur í
skaltu fagna því að þú situr í
og þú fékkst að lifa því.
Þrátt fyrir það að þú færist ekki úr stað
skaltu muna hvað þú hefur afrekað.

Að deyja það er alls ekki það versta vinur minn
að lifa ei til fulls er sýnu verra.
Stattu því beinn, já svona alveg eins og teinn
og vertu viss um að þér birtist óskasteinn.

Lævís og ljót og stundum öskufljót
er hún biturðin og öfundin
hún er steypt í sama mót.
Þótt tilveran flá á stundum virki grá
vertu viss það bætast litir ofan á.

Að mistakast er alls ekki svo galið góði minn
að reyna aldrei neitt er miklu síðra.
Vittu því til það verða kaflaskil
og fyrir hamingju þú sérð ei handaskil

Að falla eru ekki endalokin vina mín
að þora ekki að stökkva er öllu verra.
Að gráta það er ekkert til að fela ástin mín
Vertu þakklát fyrir þá sem tárin þerra
Svo láttu nú sjást að þú eigir fullt af ást
og reyndu að gleyma því sem áður yfirsást.
Track Name: Glæður eldsins
Glæður eldsins ylja mér enn
ljós og skugga burtu ég brenn
svefninn kemur og sigrar mig senn
eitt kvöldið enn

Allt sem ég missti og allt sem ég á
Sumt af því tildur annað er prjál
Þín vegna lærði ég betur að sjá
Skynja og þrá

Og líf þitt allt eins og bálið sem brennur
Það leið alltof hratt (Það kulnaði hratt)

Hvað sem svo verður og hvert sem ég sný
Eitt máttu vita, ég lofa þér því
Að blása í glæðurnar eldinn á ný
Þú treysta mátt því

Og líf þitt allt eins og bálið sem brennur
Það leið alltof hratt
Og bros þitt allt eins og áin sem rennur
Var nýtt sérhvern dag

Glæður eldsins kulnaðar brátt
Ríkir að nýju köld norðanátt
Andi þinn horfinn, í heiminum fátt
sem færir mér sátt

Og líf þitt allt eins og bálið sem brennur
Það leið alltof hratt
Og bros þitt allt eins og áin sem rennur
Var nýtt sérhvern dag
Track Name: Úlfur
Vatnið er stillt og vindana lægir
Sólin er sest en tunglskinið nægir
Bjarminn sem speglast á einmana tjörnum,
er bara minning um birtu frá fallandi stjörnum

Og ég er aldrei, aleinn
Ég er aldrei aleinn
Ég er aldrei aleinn
Því það fylgir mér úlfur hvert sem ég fer

Og skepnan er slóttug og gefur mér gætur
Og endrum og eins, leggst gæf mér við fætur
Og ef ég vil sýna hvar hefur valdið
Ég fæ það til baka og tífalt er gjaldið

Og ég er aldrei, aleinn
Nei ég geng aldrei aleinn
Ég er aldrei aleinn
Því það fylgir mér úlfur hvert sem ég fer
Track Name: Ástbjartur
Ástbjartur nú er illt í efni
Þú þarft að segja fólkinu hvert stefni
Það virðast allir ganga hér í svefni
Og allt á leið til andskotans

Ástbjartur þú sérð bleika fílinn
Svo augljóst er þú keyrir leigubílinn
slæðufólkið, hommana og skrílinn
Hvar sem er, smeygir sér...

Eitt sinn var allt svo gott og einfalt
Það voru engar kellingar að væla
Menn voru menn, ekkert estrógen
Þið siglduð þótt væri pínu bræla

Ástbjartur þú ert raunamæddur
Og með réttu ertu skynsamlega hræddur
Nú þarf einhver góðum kostum gæddur
Að fylkja vorri þjóð undir eitt flagg

Ástbjartur ekki hætta að blogga
Þeir birta þetta á endanum í Mogga
ef fjölmenningarfasistarnir gogga
Sí og æ, ég hlæ

Eitt sinn var allt svo ofureinfalt
Það var engin feministaþvæla
Menn voru menn, ekkert estrógen
Þið siglduð þótt væri pínu bræla

Æ Ástbjartur þig dreymir gamla tíma
Sviðasultu, mysu og skífusíma
Ef lífið væri bara íslensk glíma
Ó já...
Track Name: Sópum undir teppið
Elli frændi mætti fullur í fermingarveisluna
Lagðist oná hlaðborð og gubbaði á tertuna
Það þurfti fjóra til að færa hann og fela hann undir gamalli búslóð í bílskúrnum
En við tölum ekki um það, nei við tölum aldrei aftur um það.

Við sópum því bara undir teppið
Og tölum ekki um það meir
Sópum undir teppið
Þetta hverfur það gleymist deyr
Ekki allt fólk svona heppið
Að geta nýtt teppið til að takast á við hlutina
Sópum undir teppið og tölum ekki meir.

Hannes mágur hann hélt framhjá og eignaðist þríbura
Þarf að borga meðlag og og alls konar reikninga
Svo þarf hann endalaust að vinna til að sinna og borga fyrir júdó og dansskóla
En hjónin tala ekki um það, nei þau tala aldrei aftur um það

Þau sópa því bara undir teppið
Og tala ekki um það meir
Sópa undir teppið
Það gleymist allt seinnameir
Ekki allt fólk svona heppið
Að geta nýtt teppið til að takast á við hlutina
Sópum öllu undir teppið og tölum ekki meir.

Amma er alltaf brjáluð og hrækir á bréfberann
Hringir inn á Sögu og baktalar Pólverjann
Ég þarf að skjótast einhvern tímann og aftengja símann og fjarlægja póstkassann
En ég tala ekki um það, nei ég tala ekki um það við neinn

Ég sópa því bara undir teppið
Og tala ekki um það meir
Sópa undir teppið
Þetta hverfur það gleymist deyr
Ekki allt fólk svona heppið
Að geta notað teppið til að takast á við hlutina
Sópa öllu undir teppið og tala ekki meir.
Track Name: Eimreiðin
Ég moka kolum inn í brennandi ofn þvert á sannfæringu mína.
Færist áfram eftir teinum vanans þótt ég láti ekki í það skína

Og furðulegt nokk þá er ég hér enn
reyni að gleyma og rifja upp í senn

Eimreiðin blæs svörtum reyk
rennur áfram af vana og einmeinaleik
eimreiðin fer hvergi smeyk
og við mokum öll í ofninn

Það er engin leið aftur um brýr sem að baki þér brenna
Þú nauðugur ferð niður árnar til að sjá hvert þær renna

Og merkilegt nokk þær renna í hring
Og í því felst sátt og um leið fordæming

Eimreiðin blæs svörtum reyk
rennur áfram af vana og einmeinaleik
eimreiðin fer hvergi smeyk
og við mokum öll í ofninn